Atvinnuumhverfi kvenna

Á sjötta áratugnum lýstu síðan Sovétríkin því yfir að kynjajafnrétti hefði verið náð vegna þess árangurs sem hafði náðst í að auka hlut kvenna í atvinnulífinu og í stjórnmálum. Mörg mið- og austur-evrópsk ríki fylgdu í spor þeirra og lýstu því yfir að fullkomið kynjajafnrétti ríkti. Undir kommúnisma stóð opinber umræða formlega alltaf með konum og orðræða ríkisins og hugmyndafræði lagði áherslu á jafnrétti kynjanna. En því miður var firringarhugtak Marx sjálfs ekki talið nothæft í kommúnistaríki. Eftir 1956 tók formleg jafnréttisstefna ríkisins að missa gildi sitt og í kjölfarið urðu breytingar sem leiddu til þess að við enda kommúnistatímabilsins sátu konur uppi með hamlandi vinnulög sem settu þær í ójafna stöðu gagnvart körlum, þótt formlega héti það forréttindastaða.

Kommúnistaríkin fylgdu ekki upphaflegum hugmyndum Marx, Engels eða Bebel, heldur hagsmunum ríkisins og pólitísks valds. Ríkisrekinn efnahagur, tilgangslaus vopnaframleiðsla og iðnvæðing krafðist ódýrara vinnuafls. Konur í flestum ríkjum voru skyldaðar til vinnu en með undantekningum þó. Giftar konur í Tékkóslóvakíu voru ekki skyldugar til þess að vinna en gerðu það nánast allar. Konur litu á það sem skyldu sína að leggja sinn hlut til heimilisins. Þær fóru út á vinnumarkaðinn og tóku á sig tvöfalda byrði heimilishalds og launavinnu. Andspyrna kvenna gagnvart þessum breytingum var ekki mikil, því öll áhersla á kvenréttindi og kynjajafnrétti var af ríkinu talin vera aðför óvinarins að stéttabaráttunni.

Atvinnuþátttaka kvenna
Meirihluti kvenna í kommúnistaríkjunum var útivinnandi. Árið 1968 voru konur 46,1% vinnuafls Tékkóslóvakíu, árið 1989 hafði talan hækkað upp í 48,4% eða um 94% allra kvenna. Það er svipað hlutfall og í öðrum kommúnistaríkjum á þeim tíma. Þá voru 90% austur-þýskra kvenna útivinnandi á móti aðeins 58% vestur-þýskra kvenna.

Opinberar tölur um atvinnuþátttöku kvenna geta þó verið villandi. Þær er hægt að túlka sem vísbendingu um jafnrétti og að sjálfsákvörðunarréttur kvenna sé virtur. En þær er einnig hægt að túlka sem vísbendingu um áhrif hugmyndafræði og goðsaga hins opinbera. Þrátt fyrir að hinu opinbera hafi tekist að minnka félagslegan mun karla og kvenna með því að auka atvinnuþátttöku kvenna, þá þýðir það ekki að karlar og konur hafi haft sömu tækifæri.

„Í öllum þróuðum iðnríkjum er að finna verkaskiptingu milli kynja ... sú einfalda staðreynd að konur og karlar vinna ólíka vinnu gefur ekki sjálfkrafa til kynna misrétti eða félagslegt ójafnrétti. Hins vegar, þegar félagslega verkaskiptingin snýst um valdasamskipti milli kynja, kerfisbundin yfirráð og undirgefni og misskiptingu í formi lífs og aðgerða, þá er verkaskipting orðin hluti af samskiptum feðraveldisins og trygging fyrir því að þau viðhaldist“ (Nickel, 1993: 138). Því getur „[þ]að sem virðist vera óumdeilanlega rétt tölfræði getur ruglað, falið og jafnvel réttlætt hversdagslega staðreyndir um kynjamisrétti og mismunun“ (Kolinsky og Nickel, 2003: 8).

Konur í Búlgaríu voru ekki hátt skrifaðar á vinnumarkaðnum og sinntu mest hefðbundnum kvennastörfum, umönnun barna, aldraðra og sjúkra. Í rannsókn Gavrilova, Merdzanska og Panova (1993) segir að árið 1988 hafi 34,6% kvenna starfað við iðnað, 18,3% kvenna við landbúnað, 11,8% kvenna við þjónustu, 10,2% kvenna við menntun og 7,7% við heilbrigðistengd störf. Aðeins 1,6% kvenna voru í stjórnunarstöðum og í stjórnmálum og stjórnsýslu var hlutfall kvenna innan við 15 prósent. Þar sem lítil von var á frama á vinnumarkaðnum lögðu flestar konur mestan metnað í heimilisstörfin.

Á miðjum níunda áratugnum unnu aðeins 7% tékkóslóvaskra kvenna hlutastarf. Það er mjög lágt hlutfall ef litið er til vestrænna ríkja. Á sama tíma unnu 35% kvenna hlutastarf í Kanada, 44% á Bretlandi, 53% í Hollandi og 30% í Vestur-Þýskalandi. Hins vegar var fullur vinnudagur ekki val allra Tékkóslóvaka, 25% vinnandi kvenna á þeim tíma hefðu frekar viljað vinna hlutastarf og 40% kvenna sem nýlega höfðu snúið aftur til starfa eftir fæðingarorlof hefðu einnig heldur kosið hlutastarf. Það má leiða að því líkur að tvöföld byrði kvenna hafi haft áhrif á slík viðhorf þeirra. Árið 1989 var atvinnuþátttaka ungverskra kvenna 80% og nánast engin kona vann hlutavinnu. Fjórðungur kvenna í Austur-Þýskalandi var í hlutastarfi en framboð af slíkum störfum var ekki mikið. Sækja þurfti um leyfi hjá ríkinu og það var aðeins veitt við sérstakar aðstæður. Margar atvinnugreinar voru þannig skipulagðar að ekki var möguleiki á hlutastarfi.

Karlar höfðu mun betri pólitísk sambönd og fengu því betri störf en konur. Í rannsókn sem gerð var árið 1987 voru aðeins 5% kvenna í stjórnunarstöðum fyrirtækja og í 6% fyrirtækja voru engar konur í millistjórnunar- eða stjórnunarstöðum. Karlar voru forstjórar fyrirtækja í meira en þrisvar sinnum fleiri tilvika en konur. Þrátt fyrir það kvartaði enginn og konur vildu jafnvel frekar að karlar gegndu stjórnunarstöðum. Slík viðhorf höfðu viðgengist síðan á sjöunda áratugnum þegar konur í stjórnunarstöðum voru aðeins 4,8% og þar af 1,6% forstjóra. Jafnvel í heilbrigðisgeiranum, þar sem konur voru 96% starfsmanna, þá voru aðeins 11,6% þeirra í stjórnunarstöðu. Þegar slíkar niðurstöður voru gerðar opinberar komu þær upp um raunverulega stöðu kvenna, en stjórnvöld sýndu þeim lítinn áhuga. Það vantaði alla faglega og opinbera umræðu um konur á vinnumarkaðnum og þannig viðhélst karllægt eðli hans.

Viðhorf til launaðrar vinnu kvenna
Kommúnísk stjórnvöld höfðu jafnan ósamrýmanleg markmið í stefnum sínum gagnvart konum. Opinber stefna fól í sér jafnrétti kynjanna en opinber orðræða snérist ósjaldan um hluti eins og eðlislægan mun karla og kvenna eða hvort leyfa ætti skilnaði. Þessi ólíku skilaboð höfðu áhrif á fólkið því stjórnvöld stunduðu ritskoðun og stjórnuðu opinberri umræðu. Í félagsfræðirannsókn sem gerð var í Ungverjalandi árið 1970 kom í ljós að foreldrar höfðu mjög ólíkar hugmyndir um framtíð barna sinna eftir því af hvoru kyninu þau voru. Drengirnir áttu að verða aðalfyrirvinna heimilanna en stúlkurnar aðeins auka-fyrirvinna. Stúlkurnar voru sendar í skóla sem veittu enga sérfræðiþekkingu eða starfsþjálfun en strákarnir voru sendir í skóla þar sem þeir fengu starfsþjálfun.

Úti á vinnumarkaðnum ríkti formlegt jafnrétti en ekki raunverulegt eða eins og Jancar (1978) komst að orði, þá höfðu kommúnískar ríkisstjórnir sérstakar hugmyndir um hvað teldist heppileg vinna fyrir konur. Auk þess, þar sem konur stjórnuðu heimilinu og voru taldar hæfastar til þess jókst sífellt áhersla þeirra sjálfra á það hlutverk, því þaðan fengu þær viðurkenningu.

Í Póllandi bönnuðu lögin konum að vinna við níutíu störf innan átján mismunandi atvinnugreina. Þar með talin voru hæst launuðu störfin við byggingavinnu, námuvinnu og akstur langferðabíla. Lögin voru ætluð til þess að vernda konur frá hættulegum störfum. Þess í stað unnu konur aðallega við léttaiðnað og í illa launuðum kvennastörfum svo sem við kennslu, lækningar og tannlækningar. Karlarnir voru mun hærra launaðir í verkamannavinnu heldur en konur í störfum sem kröfðust framhaldsmenntunar. Jafnvel þótt konur hefðu mátt, eða átt að, vinna úti var kynskipting starfa og kynbundinn launamunur þannig að eftir fall kommúnismans gátu margar pólskar konur ekki gert upp við sig, hvort vinnan undir kommúnisma hefði verið merki um frelsi eða kúgun þeirra.

Í Búlgaríu var opinber stefna að frelsa konur undan fyrri kúgun en í rauninni voru aðeins sett annars konar höft á þær. Alvarlegustu áhrifin urðu af stefnu sem bar einfaldlega heitið „frelsun kvenna úr keðjum kapítalismans“. Það átti að hjálpa konum að losa þær undan menntunarleysi og kúgun feðraveldisins, en þess í stað fengu þær tvöfalda byrði vinnu og heimilisstörf. Hlutverk þeirra sem húsmæður var gert að annars flokks aukahlutverki og í raun var þeim konum hampað sem sannir stuðningsmenn ríkisins sem unnu láglauna- eða landbúnaðarstörf.

Samkvæmt fyrrnefndri staðalímynd urðu konur að uppfylla þrjú hlutverk til þess að teljast jafnar körlum. Þær urðu að vera mæður og eiginkonur, góður og hæfur starfskraftur og félagslega virkar innan kommúnistaflokksins. Þessi staðalímynd birtist í opinberri umræðu, kvennablöðum og víðar, en engri konu tókst þó að uppfylla hana. Loforðið um að þegar kommúnisminn færi að virka þá yrðu karlar og konur jöfn var ekki efnt. Konur höfðu lagaleg réttindi og þá félagslegu aðstoð sem til þurfti en gátu aldrei staðist kröfur samfélagsins um hina fullkomnu kommúnísku konu og voru þess vegna jafnilla ef ekki verr settar en áður.

Kynbundin verkaskipting
Í vesturhluta Evrópu þurfti mikið átak til þess að koma samfélaginu af stað aftur eftir stríðið, líkt og annars staðar. Hluti verkefnisins fólst í því að koma aftur á hefðbundnum kynjahlutverkum og gera húsbóndann aftur að fyrirvinnu heimilisins. Verkaskiptingin var skýr. Karlinn átti að vinna inn pening fyrir fjölskylduna, ásamt því að tryggja eiginkonunni lífsviðurværi til dauðadags. Barnauppeldi og heimilisstörf voru á herðum kvenna og var þeim þar með ýtt út af vinnumarkaðnum og aftur inn á heimilin.

Saga kynsystra þeirra í austrinu var með öðru móti, en þrátt fyrir það var kynbundna verkaskiptingu að finna á báðum vinnustöðum þeirra, innan og utan heimilisins. Kommúnistaríkin náðu ekki miklum árangri í að ríkisvæða heimilisstörf. Slík þjónusta varð aldrei almenn og meirihluti kvenna valdi að nota ekki ríkisrekin þvottahús og mötuneyti, þar sem slíkt var til staðar. Þjónustan var ekki dýr og það var á hvers manns færi að nýta hana, en aðalástæðan fyrir litlum vinsældum hennar var að konum þótti þvotturinn ekki verða nógu hreinn og maturinn ekki vera nógu góður. Staðalímynd húsmóðurinnar hélt því velli, en varð ekki til þess að bæta lífskjör kvenna.

Það sem fólst í heimilisstörfum kvenna í Austur-Evrópu var, meðal annars, að kaupa inn fyrir heimilið, sem gat verið mikið mál því það þurfti oft að fara í margar búðir, bíða í löngum röðum auk þess sem það var aldrei það sama til í búðunum. Þetta ferli tók því langan tíma og það var ekki hægt að skipuleggja það fram í tímann. Karlarnir tóku yfirleitt ekki þessi verkefni að sér en í rannsókn sem gerð var í Búlgaríu árið 1969 kom í þó í ljós að því menntaðri sem karlar voru, því líklegri voru þeir til þess að taka þátt í heimilisstörfunum. Konur voru í flestum tilvikum bundnari heimilum sínum við reglubundin verkefni eins og þvotta, mat og umsjón með börnum. Karlarnir voru ekki eins bundnir heimilum sínum, því þeirra verkefni voru tilfallandi líkt og að gera við bílinn.

Mið- og austur-evrópskar konur fengu almennt ekki menntun fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari. Margar voru ólæsar því skólarnir höfðu ekki við að mennta allan þann fjölda sem streymdi að. Það varð til þess að konur unnu frekar láglaunastörf, tengdum hefðbundnum hlutverkum þeirra, sem kröfðust ekki sérstakrar þekkingar. Valið á menntun sem konur sóttu var oft einhæft og fljótlega urðu til kvennastéttir. Þær voru í meirihluta í heilbrigðistengdu námi, kennslu og bókfærslu. Einungis konur sóttu nám í leikskólakennslu og hjúkrunarfræði, þrátt fyrir tilraunir til þess að hvetja unga karla í slíkt nám með þar til gerðum styrkjum. Konur fóru mun síður í nám sem leiddi venjulega til háttsettra staða og frama í stjórnmálum. Flestir þeirra sem náðu langt voru verkfræðimenntaðir, en konur voru í miklum minnihluta í raunvísindum ef frá eru talin efnafræði og lyfjafræði. Kynbundin verkaskipting í námi hafði áhrif á stöðu kvenna í samfélaginu eins og önnur verkaskipting.

Sú staðreynd að konur unnu launavinnu hafði áhrif á líf þeirra en það leiddi ekki af sér jafnrétti kynjanna, heldur kynjaskiptingu. Karlinn var ekki eina fyrirvinna heimilisins, en hann var álitinn aðalfyrirvinna heimilisins. Slíkum hugmyndum varð ekki breytt með lagabreytingum, heldur voru tengdar mun eldri hefðum. Löggjöfin í kommúnistaríkjunum innhélt yfirleitt ekkert sem hægt var að líta á sem misrétti milli kynja. Hlutfall kvenna á vinnumarkaði var því venjulega jafnhátt karla. Einnig fengu konur ýmis tækifæri svo sem til menntunar og frekari þjálfunar, sem jók sjálfstraust þeirra og sjálfstæði frá körlum. Samt sem áður var það nákvæmlega á þessu sviði, atvinnusviðinu, sem jafnrétti náðist ekki milli karla og kvenna. Konur voru með lægri laun en karlar. Árið 1969 unnu konur í Tékkóslóvakíu og Búlgaríu fyrir minna en helmingi tekna heimilisins. Kona með háskólagráðu fékk aðeins meðallaun karls með grunnskólapróf. Konur fengu ekki störf við stjórnmál og stjórnun og þannig viðhélst misréttið.

Að reyna að samræma hlutverkin varð að eins konar fasta í samfélaginu. Þegar kona sótti um vinnu var fyrirfram gert ráð fyrir að ef hún væri barnlaus myndi hún einhvern tíma eignast börn og hefði því takmarkaðan áhuga á starfsframa. Þessi fyrirfram ákveðna forsenda, sem samfélagið gaf sér, hafði í för með sér að konur unnu láglaunakvennastörf. Gott dæmi um kynbundna verkaskiptingu á vinnumarkaðnum er að í Austur-Þýskalandi völdu stúlkur sem útskrifuðust úr framhaldsskóla í 60% tilvika milli 16 mismunandi starfagreina af 259 mögulegum. Innan þeirra störfuðu nánast einungis konur. Í 48 starfsgreinum voru konur helmingur stéttarinnar og í þeim 195 starfsgreinum sem eftir voru töldu konur aðeins 1-5% stéttarinnar. Karlar störfuðu því á mun breiðari vettvangi auk þess sem þeir höfðu hærri laun og meiri möguleika á stöðuhækkunum. Kommúníska dæmið sýnir fram á að ef ríkið beitir sér ekki fyrir jafnrétti á vinnumarkaðnum, þá verða engar breytingar eða breytingarnar falla í sama gamla far kynbundinnar verkaskiptingar. Formlegt jafnrétti leiddi ekki til raunverulegs jafnréttis og konur urðu á endanum þreyttar á tvöfaldri byrði og vildu heldur fara aftur inn á heimilin.

Engin ummæli: