Afturhvarf til íhaldsamari hugmynda

Vegna tæknilegra örðugleika verður að ýta á titil færslanna til að sjá þær í heild sinni.

Bolsévikar vildu leysa upp fjölskylduna. Þeir vildu leyfa skilnaði í Rússlandi, því fólk átti að geta losað sig úr ástlausum samböndum. Rithöfundurinn Leó Tolstoy, samtímamaður Leníns og Stalíns túlkaði tíðarandann í sögu um eiginkonu í ástlausu hjónabandi í einu frægasta verki sínu, Anna Karenina. Þegar fram liðu stundir breyttist stefna kommúnistaflokkanna. Hún breyttist frá því að vera bolsévískar yfirlýsingar um dauða fjölskyldunnar yfir í áróður Stalíns fyrir stöðugleika fjölskyldunnar.

Lenín (f. 1870 – d. 1924) og Jósef Stalín (f. 1878 – d. 1953) voru félagar í Bolsévika flokknum fyrir rússnesku byltinguna 1917. Í kjölfarið varð Lenín fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna og sat í því embætti þar til hann lést árið 1924. Hann var vel menntaður og hafði ferðast víða. Hugmyndafræði hans var útgáfa af marxisma sem kölluð var marxista-lenínismi. Hún byggði á bolsévískum hugmyndum og lagði meðal annars áherslu á frelsun kvenna og upplausn fjölskyldunnar. Lenín bar saman félagslegar stofnanir í kommúnískum og kapítalískum ríkjum

„Opinber mötuneyti, vöggustofur, leikskólar – hér höfum við dæmi um slíka afleggjara, hér höfum við hina einföldu, hversdagslegu leið, sem inniheldur ekkert snobb, hégómlegt tal, eða hátíðleika, sem getur raunverulega frelsað konur, raunverulega minnkað og eytt ójafnrétti þeirra gagnvart körlum í tilliti hlutverka þeirra í framleiðslu samfélagsins og opinberu lífi. Þessar aðferðir eru ekki nýjar, þær (eins og allar efnislegar forsendur kommúnisma) eru skapaðar af kapítalisma. En undir kapítalisma, voru þær, í fyrsta lagi, sjaldgæfar og í öðru lagi – sem er sérstaklega mikilvægt – annað hvort hagnaðarfyrirtæki, með öllum verstu birtingarmyndum áhættu, brasks, svindls og falsana, eða ‘loftfimleikum borgaralegrar ölmusu’, sem bestu öreigar réttilega hötuðu og fyrirlitu“ (sbr. Heitlinger, 1979).

Eftir að Lenín féll frá varð Jósef Stalín leiðtogi Sovétríkjanna. Hann gegndi því embætti frá 1928 og þar til eftir heimstyrjöldina síðari, eða til ársins 1953. Hann fylgdi hugmyndafræði Marx og Lenín, þó í breyttri mynd og hafa hugmyndir hans verið kallaðar stalínismi. Helst voru það efnahagslegar breytingar sem höfðu í för með sér breyttar pólitískar áherslur og einnig breytta ímynd kvenna. Hluti breytinganna fólst í fimm-ára áætlunum Stalíns og hugmyndum hans um samyrkjubú.

Fimm-ára áætlanirnar miðuðu að því að iðnvæða Rússland, færa það frá bændasamfélagi yfir í iðnsamfélag. Þær greiddu fyrir kynskiptum vinnumarkaði. Atvinnuleysi jókst og konur urðu meirihluti atvinnulausra því stór hluti léttaiðnaðar var lagður niður í stað þungaiðnaðar, sem konur unnu oftast ekki við. Konur fengu því léleg og illa launuð störf og áttu litla möguleika á framgangi. Samhliða þessu varð stefna stjórnvalda íhaldssamari gagnvart konum og launavinnu. Nokkrum misserum síðar jókst skyndilega framleiðnin í landinu og þá snéri stefna stjórnvalda skyndilega við og þau tóku að hvetja konur út á vinnumarkaðinn. Bolsévískar hugmyndir um dauða fjölskyldunnar voru þó lagðar endanlega á hilluna og við tóku ruglingsleg skilaboð um þrefalt hlutverk kvenna sem húsmæður, verkakonur og kommúnistar. Skortur á vinnuafli varð svo mikill á þessum tíma að heimavinnandi húsmæðrum, sem vildu ekki vinna úti, var refsað með því að taka frá þeim skömmtunarmiðana fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Konur höfðu því ekki mikið val um hvernig þær skipulögðu líf sitt frekar en áður.

Sovéska stjórnin vildi búa til sérstök ríkisstýrð viðskipti með vefnaðarvöru að hætti kommúnista. Kvenlegir eiginleikar voru skilgreindir sem fullkomnir fyrir vefnaðariðnað og nýju aðferðirnar urðu hluti af réttlætingu á sovéskum viðskiptum, sem í raun voru keimlík viðskiptum að hætti markaðsskipulagsins. Markmiðið var að búa til viðskipti sem voru annars konar en kapítalísk viðskipti og þátttaka kvenna sem verkamenn í vefnaðariðnaði og sem afgreiðslukonur, réttlætti muninn milli kerfanna. Kvennavæðing í vefnaðariðnaði varð því hluti af kynjun sovéskra viðskipta og lögmætingu nýja vefnaðariðnaðarins. Jafnframt veitti breytingin konum tækifæri til þess að öðlast nýja ímynd sem verkalýðshetjur og notuðu þær sér það óspart til þess að tala fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu.

Á sama tíma brást samfélagsþjónustan, sem bolsévikar höfðu gert að skilyrði fyrir jafnrétti, og konur urðu að taka á sig tvöfalda byrði. Í raun var stefna ríkisins tvöföld, um leið og kvenlegir hæfileikar voru fullkomnir fyrir vefnaðariðnaðinn voru þeir einskis nýtir annars staðar, svo sem fyrir stjórnunarstöður. Konur voru því ennþá fyrst og fremst húsmæður og það varð lítið úr áformum um ríkisrekið heimilishald. Schrand (1999) sagði að „[þ]jónusta líkt og félagsleg eldhús og barnaumönnun var takmörkuð ekki aðeins vegna áhugaleysis karlkyns stjórnenda og ákvörðunar flokksins um að styrkja í stað þess að eyða kjarnafjölskyldunni, heldur líka vegna kerfis forgangsröðunar og ástæðna búnum til af notkun miðstýrðrar skipulagningar“. Það var því ekki bara einlægur ásetningur ríkisins að leggja tvöfaldar byrðar á herðar kvenna eða einungis hefðbundnar staðalímyndir sem réðu ástandinu, heldur einnig stjórnkerfisbreytingar.

Kotkin (1996) segir afleiðingar fimm-ára áætlananna hafa leitt til „ástands mikils ójafnvægis, aðstæður sem sýndu sterklega vísbendingar um komandi alræðiskerfi, sem reyndi með takmörkuðum árangri að ná tökum á þeim vanda sem það hafði sjálft búið til“ (sbr. Schrand, 1999). Upp frá þessu varð vald ríkisins sífellt meira, ólíkt hugsjóninni í upphafi um frjálsar ástir og athafnir manna. Konur voru neyddar til vinnu en ríkið kom ekki til móts við þær með ríkisreknum mötuneytum, þvottahúsum og dagheimilum, nema að litlu leyti. Í umræðunni um heimilisstörf, allt frá Marx til Stalíns, var jöfn þátttaka karla í heimilisstörfum aldrei inni í myndinni. Peto (1994) segir:

„Vinna var skylda, en ekki réttindi, og lág laun gerðu tekjur bæði eiginkvenna og eiginmanna nauðsynlegar til þess að fjölskyldan kæmist af. Jafnréttið sem kommúnísk stjórnvöld héldu frammi leiddi af sér að konur unnu eins og karlar á vinnumarkaðnum. Mikilvæg staðreynd er að ekkert „mótjafnrétti“ var til fyrir þátttöku karla í heimilinu. Feðraveldið sem var til áður en kommúnistar tóku við völdum stóð óhreyft, með konur axlandi byrðina af efnahagslegum- og heimilisverkum. Í stað þess að raunverulega frelsa konur, breyttist ríkiskommúnismi í kerfi sem misnotaði konur tvöfalt í hlutverkum þeirra sem fyrirvinnur og mæður. Opinber upphafning þeirra, kynnt með áróðri og fjölmörgum styttum af sterkum öreigakonum standandi við hlið karlkyns félaga þeirra, því miður, endurspeglaði ekki raunveruleikann í lífi kvenna“ (sbr. Lafont, 2001: 205).

Sú staðreynd að konur unnu úti en karla unnu ekki inni á heimilunum segir margt um stöðu kvenna. Öll vandræðin við að búa til ríkisrekið heimilishald eiga rætur sínar að rekja til þess að það var ekki möguleiki að karlar tækju jafnan þátt í heimilisstörfum. Að sama skapi má velta því fyrir sér hvort það var ímynd móðurhlutverksins sem var svo sterk eða hvort heimilisstörf hafi verið fyrir neðan virðingu karla og staða kvenna þar með lægri. Það er þó ljóst að breytingarnar sem urðu á þessum tíma urðu upphafið að tvöfaldri byrði kvenna og lægri stöðu þeirra í samfélaginu, sem einkenndi kommúnistaríkin í Mið- og Austur-Evrópu.

Engin ummæli: