Félagslegt umhverfi barneigna

Félagslegt umhverfi barneigna segir til um aðstæður kvenna til þess að vinna úti og sjá fyrir sér, þá sérstaklega þar sem hefðbundin gildi ríkja um hlutverk þeirra, líkt og raunin var í kommúnistaríkjunum. Dagvistunarkerfið hafði lítil áhrif á stöðu karla í samfélaginu, þar sem þeir voru í miklum minnihluta einstæðra og heimavinnandi foreldra. Fóstureyðingar eru einnig forsenda fyrir jafnrétti ásamt því hvort getnaðarvarnir séu fáanlegar. Að lokum skiptir það máli hvort og hvernig ríkið styður fjárhagslega við foreldra, þá sérstaklega einstæða foreldra.

Dagvistunarkerfinu í kommúnistaríkjunum var jafnan skipt í tvö stig. Hér mun barnagæsla fyrir börn frá fæðingu til þriggja ára vera kölluð dagvistun en eldra stigið, fyrir börn á aldrinum þriggja til sex ára vera kallað leikskóli. Munur var milli ríkja á viðhorfum og notkun á þessum tveimur stigum. Sums staðar þótti sjálfsagt að börnin væru í dagvistun frá fæðingu en annars staðar var slík vistun litin hornauga. Það tengdist meðal annars því hvers konar fæðingarorlof og bætur voru í boði fyrir konur. Öll ríkin sem hér um ræðir voru þó sammála um ágæti leikskóla.

Dagvistunarkerfið
Dagvistunarkerfi kommúnistaríkjanna voru nokkurn tíma að þróast vegna þess hversu dýr í rekstri og umfangsmikil þau voru. Á sjötta áratugnum voru mjög fá börn í dagvistun og leikskólum í Ungverjalandi. Þrátt fyrir það var fæðingarorlof kvenna aðeins sex vikur. Ýmsar aðferðir dagvistunar barna voru prófaðar. Þau voru send til afa og ömmu í sveitinni, þau voru sett á verksmiðju-vöggustofur sem unnu samkvæmt tímatöflu verksmiðjanna, vikuvöggustofur þar sem börnin komu heim um helgar eða einfaldlega voru skilin eftir heima í umsjá eldri systkina. Það var ekki fyrr en árið 1970 sem dagvistunarkerfi var komið á í Ungverjalandi.

Árið 1972 var aðeins dagvistun fyrir um 10% barna frá fæðingu til þriggja ára í Ungverjalandi og Búlgaríu, en leikskólapláss fyrir börn á aldrinum þriggja til sex ára um 30% í Búlgaríu og 60% í Ungverjalandi. Undir lok kommúnistatímabilsins var hlutfall barna á leikskóla í Ungverjalandi komið upp í 90%. Í Tékkóslóvakíu voru aðeins um 22% barna í dagvistun fyrir þriggja ára aldur eftir árið 1970, þar sem talið var ódýrara og samfélagslega betra að borga mæðrum fyrir að vera heima og hugsa um börnin. Bestu þjónustuna var að finna í Austur-Þýskalandi á þeim tíma en leikskólaplássin þar voru nægilega mörg fyrir um 73% barna. Þetta átti þó sérstaklega við um þéttbýlið. Í dreifbýlinu var ekki slík þjónusta og þurftu konur að reiða sig á fjölskyldumeðlimi. Hlutfall barna í dagvistun og á leikskólum átti þó eftir að hækka með árunum og við lok kommúnistatímabilsins voru langflest börn í einhverskonar gæslu.

Fóstureyðingar
Fóstureyðingar hafa verið umdeilt málefni í Mið- og Austur-Evrópu frá því að þær voru fyrst leyfðar í Sovétríkjunum árið 1955. Umræðan um fækkun fóstureyðinga á kommúnistatímabilinu snérist fyrst og fremst um heilbrigðistengd mál og lýðfræðilegar áhyggjur, en ekki siðferði. Umræðan um fóstureyðingar kom fyrst upp í kringum 1920. Fóstureyðingar voru bannaðar í flestum ríkjum með lögum í kringum árið 1930 en umræðan var aftur tekin upp eftir heimsstyrjöldina síðari. Eftir dauða Stalíns varð þíða í umræðunni og um miðjan sjötta áratuginn voru fóstureyðingar leyfðar í flestum kommúnistaríkjum Mismunandi reglur giltu um fóstureyðingar. Sumsstaðar voru þær framkvæmdar þegar konur óskuðu eftir þeim en annars staðar voru sett skilyrði eins og til dæmis að konur þyrftu að búa við lélegar aðstæður. Einnig var munur á hvort valið var kvennanna sjálfra eða læknisins.

Fóstureyðingar voru leyfðar í Tékkóslóvakíu árið 1957. Eins og í öðrum kommúnistaríkjum voru þær helsta getnaðarvörnin og áttu stóran þátt í þeirri fólksfækkun sem varð á næstu áratugum. Um það bil þriðja hver þungun var stöðvuð í Tékkóslóvakíu og um það bil önnur hver í þéttbýlinu. Í Póllandi, á níunda áratugnum, voru gerðar um 130.000-140.000 fóstureyðingar á ári auk 55.000-85.000 ólöglegra fóstureyðinga. Það eru mjög háar tölur miðað við Vesturlönd en alveg í takti við önnur kommúnistaríki ef frá er talið Austur-Þýskaland.

Árið 1960 voru fóstureyðingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leyfðar í Ungverjalandi. Ólöglegar fóstureyðingar vörðuðu allt að þriggja ára fangelsi. Árið 1974 var gefin út tilskipun sem var í andstöðu við gildandi lög og leyfði fóstureyðingar undir fleiri kringumstæðum en áður. Þar sem tilskipunin stangaðist á við lögin varð lagaumhverfið mjög ruglandi en fóstureyðingum fjölgaði samt sem áður. Um 100.000-200.000 fóstureyðingar voru gerðar árlega og brátt urðu þær fleiri en fæðingar, eða fjórar til sex milljónir á tímabilinu frá því tilskipunin var gefin út.

Tilkoma þess að fóstureyðingar voru leyfðar í Austur-Þýskalandi var ólík öðrum kommúnistaríkjum. Í miðju kalda stríðinu, þegar Austur- og Vestur-Þýskaland voru í hvað harðastri samkeppni, náði baráttan fyrir því að leyfa fóstureyðingar í Vestur-Þýskalandi hámarki. Þar sem stjórnvöldum Austur-Þýskalands vantaði sárlega eitthvað til þess að réttlæta eigin tilvist fyrir þegnum sínum ákváðu þau að leyfa fóstureyðingar árið 1972. Þrátt fyrir það voru talsverðir fordómar gagnvart þeim, ólíkt hinum kommúnistaríkjunum. Það var engin umræða um þær og tölfræðilegar upplýsingar var ekki að finna í árlegri tölfræðiútgáfu ríkisins. Milli 1972 og 1989 lækkaði hlutfall fóstureyðinga frá 33,7% í 21,4% kvenna.

Fólksfækkunarvandamálið
Vegna tvöfaldrar byrði kvenna og vegna þess hversu auðvelt og viðurkennt það var að fara í fóstureyðingu, varð mikil fólksfækkun í kommúnistaríkjunum. Í mörgum ríkjum urðu fóstureyðingar á endanum fleiri heldur fæðingar. Yfirvöld reyndu að bregðast við með aðgerðum sem hvöttu til barneigna. Þegar lækkun fæðingartíðni tók að verða alvarlegt vandamál í Tékkóslóvakíu á áttunda áratugnum brást ríkið við með stefnu um útvíkkun á fyrri réttindum foreldra, sem frá því á sjötta áratugnum höfðu falið í sér fæðingarorlofsstyrk, barnabætur og afslátt á barnavörum. Í viðbót komu hagstæð lán fyrir unga foreldra og mæðrastyrkir. Þrátt fyrir að slíkar stefnubreytingar hafi mælst vel fyrir höfðu þær neikvæð áhrif á starfsframa kvenna og skiptingu heimilisstarfa. Konur voru hvattar til þess að vera heima og öðluðust enn síður starfsframa en áður.

Ungverska ríkið vonaðist einnig til þess að auka fæðingatíðni og minnka tímabundið atvinnuþátttöku kvenna þegar það kynnti til sögunnar sérstakan barnaumönnunarstyrk. Mæður áttu að geta verið heima í þrjú ár og fengið greitt mánaðarlega frá ríkinu. Á meðan var fyrra starf þeirra tryggt. Fyrir ómenntaðar konur sérstaklega var þessi styrkur ekki slæmur kostur og varð mjög vinsæll. Kerfið var harkalega gagnrýnt fyrir að ýta undir hefðbundin kynjahlutverk, einangra konur og gera þær ómeðvitaðar um umhverfi sitt.

Í Búlgaríu reyndu stjórnvöld að hvetja konur sem voru af „hreinum“ búlgörskum uppruna til þess að eignast fleiri börn. Það var gert með því að banna giftum konum með tvö börn eða færri að fara í fóstureyðingu og takmarka framboð á getnaðarvörnum. Í Austur-Þýskalandi varð á sama tíma minna framboð á vinnuafli og fólksfækkun og var því svarað með því að hvetja konur til þess að vinna og til að eignast börn.

Stefna kommúníska ríkisins orsakaði að konur höfðu minni áhuga á því að eignast börn, því þær urðu að vinna úti en sáu jafnframt um heimilið og börnin. Þegar sú stefna ríkisins orsakaði fólksfækkun voru konur hvattar til þess að eignast börn með því að gera þeim kleift að vinna heima. Mikilvæga breytu vantaði til þess að dæmið gengi upp og jafnrétti gæti ríkt en það er þátttaka karla í heimilishaldi. Ef konur áttu bæði að vinna og eignast börn varð augljóslega meira að koma til en styrkir og dagvistun.

Engin ummæli: