Afturhvarf til íhaldsamari hugmynda

Vegna tæknilegra örðugleika verður að ýta á titil færslanna til að sjá þær í heild sinni.

Bolsévikar vildu leysa upp fjölskylduna. Þeir vildu leyfa skilnaði í Rússlandi, því fólk átti að geta losað sig úr ástlausum samböndum. Rithöfundurinn Leó Tolstoy, samtímamaður Leníns og Stalíns túlkaði tíðarandann í sögu um eiginkonu í ástlausu hjónabandi í einu frægasta verki sínu, Anna Karenina. Þegar fram liðu stundir breyttist stefna kommúnistaflokkanna. Hún breyttist frá því að vera bolsévískar yfirlýsingar um dauða fjölskyldunnar yfir í áróður Stalíns fyrir stöðugleika fjölskyldunnar.

Lenín (f. 1870 – d. 1924) og Jósef Stalín (f. 1878 – d. 1953) voru félagar í Bolsévika flokknum fyrir rússnesku byltinguna 1917. Í kjölfarið varð Lenín fyrsti leiðtogi Sovétríkjanna og sat í því embætti þar til hann lést árið 1924. Hann var vel menntaður og hafði ferðast víða. Hugmyndafræði hans var útgáfa af marxisma sem kölluð var marxista-lenínismi. Hún byggði á bolsévískum hugmyndum og lagði meðal annars áherslu á frelsun kvenna og upplausn fjölskyldunnar. Lenín bar saman félagslegar stofnanir í kommúnískum og kapítalískum ríkjum

„Opinber mötuneyti, vöggustofur, leikskólar – hér höfum við dæmi um slíka afleggjara, hér höfum við hina einföldu, hversdagslegu leið, sem inniheldur ekkert snobb, hégómlegt tal, eða hátíðleika, sem getur raunverulega frelsað konur, raunverulega minnkað og eytt ójafnrétti þeirra gagnvart körlum í tilliti hlutverka þeirra í framleiðslu samfélagsins og opinberu lífi. Þessar aðferðir eru ekki nýjar, þær (eins og allar efnislegar forsendur kommúnisma) eru skapaðar af kapítalisma. En undir kapítalisma, voru þær, í fyrsta lagi, sjaldgæfar og í öðru lagi – sem er sérstaklega mikilvægt – annað hvort hagnaðarfyrirtæki, með öllum verstu birtingarmyndum áhættu, brasks, svindls og falsana, eða ‘loftfimleikum borgaralegrar ölmusu’, sem bestu öreigar réttilega hötuðu og fyrirlitu“ (sbr. Heitlinger, 1979).

Eftir að Lenín féll frá varð Jósef Stalín leiðtogi Sovétríkjanna. Hann gegndi því embætti frá 1928 og þar til eftir heimstyrjöldina síðari, eða til ársins 1953. Hann fylgdi hugmyndafræði Marx og Lenín, þó í breyttri mynd og hafa hugmyndir hans verið kallaðar stalínismi. Helst voru það efnahagslegar breytingar sem höfðu í för með sér breyttar pólitískar áherslur og einnig breytta ímynd kvenna. Hluti breytinganna fólst í fimm-ára áætlunum Stalíns og hugmyndum hans um samyrkjubú.

Fimm-ára áætlanirnar miðuðu að því að iðnvæða Rússland, færa það frá bændasamfélagi yfir í iðnsamfélag. Þær greiddu fyrir kynskiptum vinnumarkaði. Atvinnuleysi jókst og konur urðu meirihluti atvinnulausra því stór hluti léttaiðnaðar var lagður niður í stað þungaiðnaðar, sem konur unnu oftast ekki við. Konur fengu því léleg og illa launuð störf og áttu litla möguleika á framgangi. Samhliða þessu varð stefna stjórnvalda íhaldssamari gagnvart konum og launavinnu. Nokkrum misserum síðar jókst skyndilega framleiðnin í landinu og þá snéri stefna stjórnvalda skyndilega við og þau tóku að hvetja konur út á vinnumarkaðinn. Bolsévískar hugmyndir um dauða fjölskyldunnar voru þó lagðar endanlega á hilluna og við tóku ruglingsleg skilaboð um þrefalt hlutverk kvenna sem húsmæður, verkakonur og kommúnistar. Skortur á vinnuafli varð svo mikill á þessum tíma að heimavinnandi húsmæðrum, sem vildu ekki vinna úti, var refsað með því að taka frá þeim skömmtunarmiðana fyrir mat og öðrum nauðsynjum. Konur höfðu því ekki mikið val um hvernig þær skipulögðu líf sitt frekar en áður.

Sovéska stjórnin vildi búa til sérstök ríkisstýrð viðskipti með vefnaðarvöru að hætti kommúnista. Kvenlegir eiginleikar voru skilgreindir sem fullkomnir fyrir vefnaðariðnað og nýju aðferðirnar urðu hluti af réttlætingu á sovéskum viðskiptum, sem í raun voru keimlík viðskiptum að hætti markaðsskipulagsins. Markmiðið var að búa til viðskipti sem voru annars konar en kapítalísk viðskipti og þátttaka kvenna sem verkamenn í vefnaðariðnaði og sem afgreiðslukonur, réttlætti muninn milli kerfanna. Kvennavæðing í vefnaðariðnaði varð því hluti af kynjun sovéskra viðskipta og lögmætingu nýja vefnaðariðnaðarins. Jafnframt veitti breytingin konum tækifæri til þess að öðlast nýja ímynd sem verkalýðshetjur og notuðu þær sér það óspart til þess að tala fyrir aukinni þátttöku kvenna í atvinnulífinu.

Á sama tíma brást samfélagsþjónustan, sem bolsévikar höfðu gert að skilyrði fyrir jafnrétti, og konur urðu að taka á sig tvöfalda byrði. Í raun var stefna ríkisins tvöföld, um leið og kvenlegir hæfileikar voru fullkomnir fyrir vefnaðariðnaðinn voru þeir einskis nýtir annars staðar, svo sem fyrir stjórnunarstöður. Konur voru því ennþá fyrst og fremst húsmæður og það varð lítið úr áformum um ríkisrekið heimilishald. Schrand (1999) sagði að „[þ]jónusta líkt og félagsleg eldhús og barnaumönnun var takmörkuð ekki aðeins vegna áhugaleysis karlkyns stjórnenda og ákvörðunar flokksins um að styrkja í stað þess að eyða kjarnafjölskyldunni, heldur líka vegna kerfis forgangsröðunar og ástæðna búnum til af notkun miðstýrðrar skipulagningar“. Það var því ekki bara einlægur ásetningur ríkisins að leggja tvöfaldar byrðar á herðar kvenna eða einungis hefðbundnar staðalímyndir sem réðu ástandinu, heldur einnig stjórnkerfisbreytingar.

Kotkin (1996) segir afleiðingar fimm-ára áætlananna hafa leitt til „ástands mikils ójafnvægis, aðstæður sem sýndu sterklega vísbendingar um komandi alræðiskerfi, sem reyndi með takmörkuðum árangri að ná tökum á þeim vanda sem það hafði sjálft búið til“ (sbr. Schrand, 1999). Upp frá þessu varð vald ríkisins sífellt meira, ólíkt hugsjóninni í upphafi um frjálsar ástir og athafnir manna. Konur voru neyddar til vinnu en ríkið kom ekki til móts við þær með ríkisreknum mötuneytum, þvottahúsum og dagheimilum, nema að litlu leyti. Í umræðunni um heimilisstörf, allt frá Marx til Stalíns, var jöfn þátttaka karla í heimilisstörfum aldrei inni í myndinni. Peto (1994) segir:

„Vinna var skylda, en ekki réttindi, og lág laun gerðu tekjur bæði eiginkvenna og eiginmanna nauðsynlegar til þess að fjölskyldan kæmist af. Jafnréttið sem kommúnísk stjórnvöld héldu frammi leiddi af sér að konur unnu eins og karlar á vinnumarkaðnum. Mikilvæg staðreynd er að ekkert „mótjafnrétti“ var til fyrir þátttöku karla í heimilinu. Feðraveldið sem var til áður en kommúnistar tóku við völdum stóð óhreyft, með konur axlandi byrðina af efnahagslegum- og heimilisverkum. Í stað þess að raunverulega frelsa konur, breyttist ríkiskommúnismi í kerfi sem misnotaði konur tvöfalt í hlutverkum þeirra sem fyrirvinnur og mæður. Opinber upphafning þeirra, kynnt með áróðri og fjölmörgum styttum af sterkum öreigakonum standandi við hlið karlkyns félaga þeirra, því miður, endurspeglaði ekki raunveruleikann í lífi kvenna“ (sbr. Lafont, 2001: 205).

Sú staðreynd að konur unnu úti en karla unnu ekki inni á heimilunum segir margt um stöðu kvenna. Öll vandræðin við að búa til ríkisrekið heimilishald eiga rætur sínar að rekja til þess að það var ekki möguleiki að karlar tækju jafnan þátt í heimilisstörfum. Að sama skapi má velta því fyrir sér hvort það var ímynd móðurhlutverksins sem var svo sterk eða hvort heimilisstörf hafi verið fyrir neðan virðingu karla og staða kvenna þar með lægri. Það er þó ljóst að breytingarnar sem urðu á þessum tíma urðu upphafið að tvöfaldri byrði kvenna og lægri stöðu þeirra í samfélaginu, sem einkenndi kommúnistaríkin í Mið- og Austur-Evrópu.

Meira...

Tímabilið 1950-1989

Jafnrétti í kommúnistaríkjunum var bæði á jákvæðum og neikvæðum forsendum. Jákvætt jafnrétti voru lög sem kröfðust jafnrétti milli kynjanna. Neikvætt jafnrétti voru alræðislegu aðferðirnar sem beitt var við að þröngva lögunum inn á fólkið. Jákvætt jafnrétti verður neikvætt þegar lög, efnahagur og stjórnmál vinna ekki að sama markmiðinu. Bitur reynsla fólks af yfirráðum ríkisins í fyrrum kommúnistarríkjum hafa enn þann dag í dag slæm áhrif í Mið- og Austur-Evrópu.

Ástandið sem skapaðist í kommúnistaríkjunum var ástand tvöfeldni eða „tvöfaldrar hugsunar“, sem setti konur í lítillækkandi stöðu og undir stjórn ríkisins. Kommúnistaríkin sannfærðu þegna sína um að konur væru frjálsar og að það ríkti jafnrétti, en það var ekki öll sagan. Raunar var vinnumarkaðurinn kynskiptur. Konur unnu kvennastörf og fengu lægri laun. Þær höfðu minni aðgang að stjórnunarstöðum og stjórnmálum auk þess sem tvöföld byrði vinnu utan og innan heimilisins sligaði konur og leiddi til fólksfækkunar í kommúnistaríkjunum.

Meira...

Atvinnuumhverfi kvenna

Á sjötta áratugnum lýstu síðan Sovétríkin því yfir að kynjajafnrétti hefði verið náð vegna þess árangurs sem hafði náðst í að auka hlut kvenna í atvinnulífinu og í stjórnmálum. Mörg mið- og austur-evrópsk ríki fylgdu í spor þeirra og lýstu því yfir að fullkomið kynjajafnrétti ríkti. Undir kommúnisma stóð opinber umræða formlega alltaf með konum og orðræða ríkisins og hugmyndafræði lagði áherslu á jafnrétti kynjanna. En því miður var firringarhugtak Marx sjálfs ekki talið nothæft í kommúnistaríki. Eftir 1956 tók formleg jafnréttisstefna ríkisins að missa gildi sitt og í kjölfarið urðu breytingar sem leiddu til þess að við enda kommúnistatímabilsins sátu konur uppi með hamlandi vinnulög sem settu þær í ójafna stöðu gagnvart körlum, þótt formlega héti það forréttindastaða.

Kommúnistaríkin fylgdu ekki upphaflegum hugmyndum Marx, Engels eða Bebel, heldur hagsmunum ríkisins og pólitísks valds. Ríkisrekinn efnahagur, tilgangslaus vopnaframleiðsla og iðnvæðing krafðist ódýrara vinnuafls. Konur í flestum ríkjum voru skyldaðar til vinnu en með undantekningum þó. Giftar konur í Tékkóslóvakíu voru ekki skyldugar til þess að vinna en gerðu það nánast allar. Konur litu á það sem skyldu sína að leggja sinn hlut til heimilisins. Þær fóru út á vinnumarkaðinn og tóku á sig tvöfalda byrði heimilishalds og launavinnu. Andspyrna kvenna gagnvart þessum breytingum var ekki mikil, því öll áhersla á kvenréttindi og kynjajafnrétti var af ríkinu talin vera aðför óvinarins að stéttabaráttunni.

Atvinnuþátttaka kvenna
Meirihluti kvenna í kommúnistaríkjunum var útivinnandi. Árið 1968 voru konur 46,1% vinnuafls Tékkóslóvakíu, árið 1989 hafði talan hækkað upp í 48,4% eða um 94% allra kvenna. Það er svipað hlutfall og í öðrum kommúnistaríkjum á þeim tíma. Þá voru 90% austur-þýskra kvenna útivinnandi á móti aðeins 58% vestur-þýskra kvenna.

Opinberar tölur um atvinnuþátttöku kvenna geta þó verið villandi. Þær er hægt að túlka sem vísbendingu um jafnrétti og að sjálfsákvörðunarréttur kvenna sé virtur. En þær er einnig hægt að túlka sem vísbendingu um áhrif hugmyndafræði og goðsaga hins opinbera. Þrátt fyrir að hinu opinbera hafi tekist að minnka félagslegan mun karla og kvenna með því að auka atvinnuþátttöku kvenna, þá þýðir það ekki að karlar og konur hafi haft sömu tækifæri.

„Í öllum þróuðum iðnríkjum er að finna verkaskiptingu milli kynja ... sú einfalda staðreynd að konur og karlar vinna ólíka vinnu gefur ekki sjálfkrafa til kynna misrétti eða félagslegt ójafnrétti. Hins vegar, þegar félagslega verkaskiptingin snýst um valdasamskipti milli kynja, kerfisbundin yfirráð og undirgefni og misskiptingu í formi lífs og aðgerða, þá er verkaskipting orðin hluti af samskiptum feðraveldisins og trygging fyrir því að þau viðhaldist“ (Nickel, 1993: 138). Því getur „[þ]að sem virðist vera óumdeilanlega rétt tölfræði getur ruglað, falið og jafnvel réttlætt hversdagslega staðreyndir um kynjamisrétti og mismunun“ (Kolinsky og Nickel, 2003: 8).

Konur í Búlgaríu voru ekki hátt skrifaðar á vinnumarkaðnum og sinntu mest hefðbundnum kvennastörfum, umönnun barna, aldraðra og sjúkra. Í rannsókn Gavrilova, Merdzanska og Panova (1993) segir að árið 1988 hafi 34,6% kvenna starfað við iðnað, 18,3% kvenna við landbúnað, 11,8% kvenna við þjónustu, 10,2% kvenna við menntun og 7,7% við heilbrigðistengd störf. Aðeins 1,6% kvenna voru í stjórnunarstöðum og í stjórnmálum og stjórnsýslu var hlutfall kvenna innan við 15 prósent. Þar sem lítil von var á frama á vinnumarkaðnum lögðu flestar konur mestan metnað í heimilisstörfin.

Á miðjum níunda áratugnum unnu aðeins 7% tékkóslóvaskra kvenna hlutastarf. Það er mjög lágt hlutfall ef litið er til vestrænna ríkja. Á sama tíma unnu 35% kvenna hlutastarf í Kanada, 44% á Bretlandi, 53% í Hollandi og 30% í Vestur-Þýskalandi. Hins vegar var fullur vinnudagur ekki val allra Tékkóslóvaka, 25% vinnandi kvenna á þeim tíma hefðu frekar viljað vinna hlutastarf og 40% kvenna sem nýlega höfðu snúið aftur til starfa eftir fæðingarorlof hefðu einnig heldur kosið hlutastarf. Það má leiða að því líkur að tvöföld byrði kvenna hafi haft áhrif á slík viðhorf þeirra. Árið 1989 var atvinnuþátttaka ungverskra kvenna 80% og nánast engin kona vann hlutavinnu. Fjórðungur kvenna í Austur-Þýskalandi var í hlutastarfi en framboð af slíkum störfum var ekki mikið. Sækja þurfti um leyfi hjá ríkinu og það var aðeins veitt við sérstakar aðstæður. Margar atvinnugreinar voru þannig skipulagðar að ekki var möguleiki á hlutastarfi.

Karlar höfðu mun betri pólitísk sambönd og fengu því betri störf en konur. Í rannsókn sem gerð var árið 1987 voru aðeins 5% kvenna í stjórnunarstöðum fyrirtækja og í 6% fyrirtækja voru engar konur í millistjórnunar- eða stjórnunarstöðum. Karlar voru forstjórar fyrirtækja í meira en þrisvar sinnum fleiri tilvika en konur. Þrátt fyrir það kvartaði enginn og konur vildu jafnvel frekar að karlar gegndu stjórnunarstöðum. Slík viðhorf höfðu viðgengist síðan á sjöunda áratugnum þegar konur í stjórnunarstöðum voru aðeins 4,8% og þar af 1,6% forstjóra. Jafnvel í heilbrigðisgeiranum, þar sem konur voru 96% starfsmanna, þá voru aðeins 11,6% þeirra í stjórnunarstöðu. Þegar slíkar niðurstöður voru gerðar opinberar komu þær upp um raunverulega stöðu kvenna, en stjórnvöld sýndu þeim lítinn áhuga. Það vantaði alla faglega og opinbera umræðu um konur á vinnumarkaðnum og þannig viðhélst karllægt eðli hans.

Viðhorf til launaðrar vinnu kvenna
Kommúnísk stjórnvöld höfðu jafnan ósamrýmanleg markmið í stefnum sínum gagnvart konum. Opinber stefna fól í sér jafnrétti kynjanna en opinber orðræða snérist ósjaldan um hluti eins og eðlislægan mun karla og kvenna eða hvort leyfa ætti skilnaði. Þessi ólíku skilaboð höfðu áhrif á fólkið því stjórnvöld stunduðu ritskoðun og stjórnuðu opinberri umræðu. Í félagsfræðirannsókn sem gerð var í Ungverjalandi árið 1970 kom í ljós að foreldrar höfðu mjög ólíkar hugmyndir um framtíð barna sinna eftir því af hvoru kyninu þau voru. Drengirnir áttu að verða aðalfyrirvinna heimilanna en stúlkurnar aðeins auka-fyrirvinna. Stúlkurnar voru sendar í skóla sem veittu enga sérfræðiþekkingu eða starfsþjálfun en strákarnir voru sendir í skóla þar sem þeir fengu starfsþjálfun.

Úti á vinnumarkaðnum ríkti formlegt jafnrétti en ekki raunverulegt eða eins og Jancar (1978) komst að orði, þá höfðu kommúnískar ríkisstjórnir sérstakar hugmyndir um hvað teldist heppileg vinna fyrir konur. Auk þess, þar sem konur stjórnuðu heimilinu og voru taldar hæfastar til þess jókst sífellt áhersla þeirra sjálfra á það hlutverk, því þaðan fengu þær viðurkenningu.

Í Póllandi bönnuðu lögin konum að vinna við níutíu störf innan átján mismunandi atvinnugreina. Þar með talin voru hæst launuðu störfin við byggingavinnu, námuvinnu og akstur langferðabíla. Lögin voru ætluð til þess að vernda konur frá hættulegum störfum. Þess í stað unnu konur aðallega við léttaiðnað og í illa launuðum kvennastörfum svo sem við kennslu, lækningar og tannlækningar. Karlarnir voru mun hærra launaðir í verkamannavinnu heldur en konur í störfum sem kröfðust framhaldsmenntunar. Jafnvel þótt konur hefðu mátt, eða átt að, vinna úti var kynskipting starfa og kynbundinn launamunur þannig að eftir fall kommúnismans gátu margar pólskar konur ekki gert upp við sig, hvort vinnan undir kommúnisma hefði verið merki um frelsi eða kúgun þeirra.

Í Búlgaríu var opinber stefna að frelsa konur undan fyrri kúgun en í rauninni voru aðeins sett annars konar höft á þær. Alvarlegustu áhrifin urðu af stefnu sem bar einfaldlega heitið „frelsun kvenna úr keðjum kapítalismans“. Það átti að hjálpa konum að losa þær undan menntunarleysi og kúgun feðraveldisins, en þess í stað fengu þær tvöfalda byrði vinnu og heimilisstörf. Hlutverk þeirra sem húsmæður var gert að annars flokks aukahlutverki og í raun var þeim konum hampað sem sannir stuðningsmenn ríkisins sem unnu láglauna- eða landbúnaðarstörf.

Samkvæmt fyrrnefndri staðalímynd urðu konur að uppfylla þrjú hlutverk til þess að teljast jafnar körlum. Þær urðu að vera mæður og eiginkonur, góður og hæfur starfskraftur og félagslega virkar innan kommúnistaflokksins. Þessi staðalímynd birtist í opinberri umræðu, kvennablöðum og víðar, en engri konu tókst þó að uppfylla hana. Loforðið um að þegar kommúnisminn færi að virka þá yrðu karlar og konur jöfn var ekki efnt. Konur höfðu lagaleg réttindi og þá félagslegu aðstoð sem til þurfti en gátu aldrei staðist kröfur samfélagsins um hina fullkomnu kommúnísku konu og voru þess vegna jafnilla ef ekki verr settar en áður.

Kynbundin verkaskipting
Í vesturhluta Evrópu þurfti mikið átak til þess að koma samfélaginu af stað aftur eftir stríðið, líkt og annars staðar. Hluti verkefnisins fólst í því að koma aftur á hefðbundnum kynjahlutverkum og gera húsbóndann aftur að fyrirvinnu heimilisins. Verkaskiptingin var skýr. Karlinn átti að vinna inn pening fyrir fjölskylduna, ásamt því að tryggja eiginkonunni lífsviðurværi til dauðadags. Barnauppeldi og heimilisstörf voru á herðum kvenna og var þeim þar með ýtt út af vinnumarkaðnum og aftur inn á heimilin.

Saga kynsystra þeirra í austrinu var með öðru móti, en þrátt fyrir það var kynbundna verkaskiptingu að finna á báðum vinnustöðum þeirra, innan og utan heimilisins. Kommúnistaríkin náðu ekki miklum árangri í að ríkisvæða heimilisstörf. Slík þjónusta varð aldrei almenn og meirihluti kvenna valdi að nota ekki ríkisrekin þvottahús og mötuneyti, þar sem slíkt var til staðar. Þjónustan var ekki dýr og það var á hvers manns færi að nýta hana, en aðalástæðan fyrir litlum vinsældum hennar var að konum þótti þvotturinn ekki verða nógu hreinn og maturinn ekki vera nógu góður. Staðalímynd húsmóðurinnar hélt því velli, en varð ekki til þess að bæta lífskjör kvenna.

Það sem fólst í heimilisstörfum kvenna í Austur-Evrópu var, meðal annars, að kaupa inn fyrir heimilið, sem gat verið mikið mál því það þurfti oft að fara í margar búðir, bíða í löngum röðum auk þess sem það var aldrei það sama til í búðunum. Þetta ferli tók því langan tíma og það var ekki hægt að skipuleggja það fram í tímann. Karlarnir tóku yfirleitt ekki þessi verkefni að sér en í rannsókn sem gerð var í Búlgaríu árið 1969 kom í þó í ljós að því menntaðri sem karlar voru, því líklegri voru þeir til þess að taka þátt í heimilisstörfunum. Konur voru í flestum tilvikum bundnari heimilum sínum við reglubundin verkefni eins og þvotta, mat og umsjón með börnum. Karlarnir voru ekki eins bundnir heimilum sínum, því þeirra verkefni voru tilfallandi líkt og að gera við bílinn.

Mið- og austur-evrópskar konur fengu almennt ekki menntun fyrr en eftir heimsstyrjöldina síðari. Margar voru ólæsar því skólarnir höfðu ekki við að mennta allan þann fjölda sem streymdi að. Það varð til þess að konur unnu frekar láglaunastörf, tengdum hefðbundnum hlutverkum þeirra, sem kröfðust ekki sérstakrar þekkingar. Valið á menntun sem konur sóttu var oft einhæft og fljótlega urðu til kvennastéttir. Þær voru í meirihluta í heilbrigðistengdu námi, kennslu og bókfærslu. Einungis konur sóttu nám í leikskólakennslu og hjúkrunarfræði, þrátt fyrir tilraunir til þess að hvetja unga karla í slíkt nám með þar til gerðum styrkjum. Konur fóru mun síður í nám sem leiddi venjulega til háttsettra staða og frama í stjórnmálum. Flestir þeirra sem náðu langt voru verkfræðimenntaðir, en konur voru í miklum minnihluta í raunvísindum ef frá eru talin efnafræði og lyfjafræði. Kynbundin verkaskipting í námi hafði áhrif á stöðu kvenna í samfélaginu eins og önnur verkaskipting.

Sú staðreynd að konur unnu launavinnu hafði áhrif á líf þeirra en það leiddi ekki af sér jafnrétti kynjanna, heldur kynjaskiptingu. Karlinn var ekki eina fyrirvinna heimilisins, en hann var álitinn aðalfyrirvinna heimilisins. Slíkum hugmyndum varð ekki breytt með lagabreytingum, heldur voru tengdar mun eldri hefðum. Löggjöfin í kommúnistaríkjunum innhélt yfirleitt ekkert sem hægt var að líta á sem misrétti milli kynja. Hlutfall kvenna á vinnumarkaði var því venjulega jafnhátt karla. Einnig fengu konur ýmis tækifæri svo sem til menntunar og frekari þjálfunar, sem jók sjálfstraust þeirra og sjálfstæði frá körlum. Samt sem áður var það nákvæmlega á þessu sviði, atvinnusviðinu, sem jafnrétti náðist ekki milli karla og kvenna. Konur voru með lægri laun en karlar. Árið 1969 unnu konur í Tékkóslóvakíu og Búlgaríu fyrir minna en helmingi tekna heimilisins. Kona með háskólagráðu fékk aðeins meðallaun karls með grunnskólapróf. Konur fengu ekki störf við stjórnmál og stjórnun og þannig viðhélst misréttið.

Að reyna að samræma hlutverkin varð að eins konar fasta í samfélaginu. Þegar kona sótti um vinnu var fyrirfram gert ráð fyrir að ef hún væri barnlaus myndi hún einhvern tíma eignast börn og hefði því takmarkaðan áhuga á starfsframa. Þessi fyrirfram ákveðna forsenda, sem samfélagið gaf sér, hafði í för með sér að konur unnu láglaunakvennastörf. Gott dæmi um kynbundna verkaskiptingu á vinnumarkaðnum er að í Austur-Þýskalandi völdu stúlkur sem útskrifuðust úr framhaldsskóla í 60% tilvika milli 16 mismunandi starfagreina af 259 mögulegum. Innan þeirra störfuðu nánast einungis konur. Í 48 starfsgreinum voru konur helmingur stéttarinnar og í þeim 195 starfsgreinum sem eftir voru töldu konur aðeins 1-5% stéttarinnar. Karlar störfuðu því á mun breiðari vettvangi auk þess sem þeir höfðu hærri laun og meiri möguleika á stöðuhækkunum. Kommúníska dæmið sýnir fram á að ef ríkið beitir sér ekki fyrir jafnrétti á vinnumarkaðnum, þá verða engar breytingar eða breytingarnar falla í sama gamla far kynbundinnar verkaskiptingar. Formlegt jafnrétti leiddi ekki til raunverulegs jafnréttis og konur urðu á endanum þreyttar á tvöfaldri byrði og vildu heldur fara aftur inn á heimilin.

Meira...

Stjórnmálaþátttaka kvenna

Pólitísk staða kvenna breyttist eftir seinni heimstyrjöldina. Grasrótarstarf þeirra, eins og annarra, var bannað og í staðinn voru stofnuð kvennasamtök innan kommúnistaflokksins. Slík samtök unnu samkvæmt flokkslínunni, en ekki endilega í þágu kvenna. Á meðan alræðisstjórnin ríkti voru konur handteknar, dæmdar í mörg hundruð ára fangelsi og jafnvel hengdar fyrir pólitískar aðgerðir.

Á þingum kommúnistaríkjanna var kynjahlutfallið almennt ójafnt, körlum í hag. Hlutfall kvenna var þó oftast hærra á þinginu en í miðstjórnum kommúnistaflokkanna og ríkisstjórninni, þar sem hin raunverulegu völd var finna. Á áttunda áratugnum voru konur til dæmis minnst 20% þingmanna pólska þingsins. Í hvert sinn sem þingið öðlaðist meira vald, sem var eftir árið 1956, árið 1989 og 1991, áttu konur erfiðara með að ná kosningu. Konur voru 23% þingmanna milli áranna 1980 og 1985. Í Tékkóslóvakíu var aðeins einn fjórði þingsins konur og í miðstjórn Kommúnistaflokksins voru konur 7% stjórnarmanna. Konur voru aðeins 30% flokksmeðlima og 18% þeirra voru í æðstu embættum flokksins.

Meira...

Félagslegt umhverfi barneigna

Félagslegt umhverfi barneigna segir til um aðstæður kvenna til þess að vinna úti og sjá fyrir sér, þá sérstaklega þar sem hefðbundin gildi ríkja um hlutverk þeirra, líkt og raunin var í kommúnistaríkjunum. Dagvistunarkerfið hafði lítil áhrif á stöðu karla í samfélaginu, þar sem þeir voru í miklum minnihluta einstæðra og heimavinnandi foreldra. Fóstureyðingar eru einnig forsenda fyrir jafnrétti ásamt því hvort getnaðarvarnir séu fáanlegar. Að lokum skiptir það máli hvort og hvernig ríkið styður fjárhagslega við foreldra, þá sérstaklega einstæða foreldra.

Dagvistunarkerfinu í kommúnistaríkjunum var jafnan skipt í tvö stig. Hér mun barnagæsla fyrir börn frá fæðingu til þriggja ára vera kölluð dagvistun en eldra stigið, fyrir börn á aldrinum þriggja til sex ára vera kallað leikskóli. Munur var milli ríkja á viðhorfum og notkun á þessum tveimur stigum. Sums staðar þótti sjálfsagt að börnin væru í dagvistun frá fæðingu en annars staðar var slík vistun litin hornauga. Það tengdist meðal annars því hvers konar fæðingarorlof og bætur voru í boði fyrir konur. Öll ríkin sem hér um ræðir voru þó sammála um ágæti leikskóla.

Dagvistunarkerfið
Dagvistunarkerfi kommúnistaríkjanna voru nokkurn tíma að þróast vegna þess hversu dýr í rekstri og umfangsmikil þau voru. Á sjötta áratugnum voru mjög fá börn í dagvistun og leikskólum í Ungverjalandi. Þrátt fyrir það var fæðingarorlof kvenna aðeins sex vikur. Ýmsar aðferðir dagvistunar barna voru prófaðar. Þau voru send til afa og ömmu í sveitinni, þau voru sett á verksmiðju-vöggustofur sem unnu samkvæmt tímatöflu verksmiðjanna, vikuvöggustofur þar sem börnin komu heim um helgar eða einfaldlega voru skilin eftir heima í umsjá eldri systkina. Það var ekki fyrr en árið 1970 sem dagvistunarkerfi var komið á í Ungverjalandi.

Árið 1972 var aðeins dagvistun fyrir um 10% barna frá fæðingu til þriggja ára í Ungverjalandi og Búlgaríu, en leikskólapláss fyrir börn á aldrinum þriggja til sex ára um 30% í Búlgaríu og 60% í Ungverjalandi. Undir lok kommúnistatímabilsins var hlutfall barna á leikskóla í Ungverjalandi komið upp í 90%. Í Tékkóslóvakíu voru aðeins um 22% barna í dagvistun fyrir þriggja ára aldur eftir árið 1970, þar sem talið var ódýrara og samfélagslega betra að borga mæðrum fyrir að vera heima og hugsa um börnin. Bestu þjónustuna var að finna í Austur-Þýskalandi á þeim tíma en leikskólaplássin þar voru nægilega mörg fyrir um 73% barna. Þetta átti þó sérstaklega við um þéttbýlið. Í dreifbýlinu var ekki slík þjónusta og þurftu konur að reiða sig á fjölskyldumeðlimi. Hlutfall barna í dagvistun og á leikskólum átti þó eftir að hækka með árunum og við lok kommúnistatímabilsins voru langflest börn í einhverskonar gæslu.

Fóstureyðingar
Fóstureyðingar hafa verið umdeilt málefni í Mið- og Austur-Evrópu frá því að þær voru fyrst leyfðar í Sovétríkjunum árið 1955. Umræðan um fækkun fóstureyðinga á kommúnistatímabilinu snérist fyrst og fremst um heilbrigðistengd mál og lýðfræðilegar áhyggjur, en ekki siðferði. Umræðan um fóstureyðingar kom fyrst upp í kringum 1920. Fóstureyðingar voru bannaðar í flestum ríkjum með lögum í kringum árið 1930 en umræðan var aftur tekin upp eftir heimsstyrjöldina síðari. Eftir dauða Stalíns varð þíða í umræðunni og um miðjan sjötta áratuginn voru fóstureyðingar leyfðar í flestum kommúnistaríkjum Mismunandi reglur giltu um fóstureyðingar. Sumsstaðar voru þær framkvæmdar þegar konur óskuðu eftir þeim en annars staðar voru sett skilyrði eins og til dæmis að konur þyrftu að búa við lélegar aðstæður. Einnig var munur á hvort valið var kvennanna sjálfra eða læknisins.

Fóstureyðingar voru leyfðar í Tékkóslóvakíu árið 1957. Eins og í öðrum kommúnistaríkjum voru þær helsta getnaðarvörnin og áttu stóran þátt í þeirri fólksfækkun sem varð á næstu áratugum. Um það bil þriðja hver þungun var stöðvuð í Tékkóslóvakíu og um það bil önnur hver í þéttbýlinu. Í Póllandi, á níunda áratugnum, voru gerðar um 130.000-140.000 fóstureyðingar á ári auk 55.000-85.000 ólöglegra fóstureyðinga. Það eru mjög háar tölur miðað við Vesturlönd en alveg í takti við önnur kommúnistaríki ef frá er talið Austur-Þýskaland.

Árið 1960 voru fóstureyðingar að uppfylltum ákveðnum skilyrðum leyfðar í Ungverjalandi. Ólöglegar fóstureyðingar vörðuðu allt að þriggja ára fangelsi. Árið 1974 var gefin út tilskipun sem var í andstöðu við gildandi lög og leyfði fóstureyðingar undir fleiri kringumstæðum en áður. Þar sem tilskipunin stangaðist á við lögin varð lagaumhverfið mjög ruglandi en fóstureyðingum fjölgaði samt sem áður. Um 100.000-200.000 fóstureyðingar voru gerðar árlega og brátt urðu þær fleiri en fæðingar, eða fjórar til sex milljónir á tímabilinu frá því tilskipunin var gefin út.

Tilkoma þess að fóstureyðingar voru leyfðar í Austur-Þýskalandi var ólík öðrum kommúnistaríkjum. Í miðju kalda stríðinu, þegar Austur- og Vestur-Þýskaland voru í hvað harðastri samkeppni, náði baráttan fyrir því að leyfa fóstureyðingar í Vestur-Þýskalandi hámarki. Þar sem stjórnvöldum Austur-Þýskalands vantaði sárlega eitthvað til þess að réttlæta eigin tilvist fyrir þegnum sínum ákváðu þau að leyfa fóstureyðingar árið 1972. Þrátt fyrir það voru talsverðir fordómar gagnvart þeim, ólíkt hinum kommúnistaríkjunum. Það var engin umræða um þær og tölfræðilegar upplýsingar var ekki að finna í árlegri tölfræðiútgáfu ríkisins. Milli 1972 og 1989 lækkaði hlutfall fóstureyðinga frá 33,7% í 21,4% kvenna.

Fólksfækkunarvandamálið
Vegna tvöfaldrar byrði kvenna og vegna þess hversu auðvelt og viðurkennt það var að fara í fóstureyðingu, varð mikil fólksfækkun í kommúnistaríkjunum. Í mörgum ríkjum urðu fóstureyðingar á endanum fleiri heldur fæðingar. Yfirvöld reyndu að bregðast við með aðgerðum sem hvöttu til barneigna. Þegar lækkun fæðingartíðni tók að verða alvarlegt vandamál í Tékkóslóvakíu á áttunda áratugnum brást ríkið við með stefnu um útvíkkun á fyrri réttindum foreldra, sem frá því á sjötta áratugnum höfðu falið í sér fæðingarorlofsstyrk, barnabætur og afslátt á barnavörum. Í viðbót komu hagstæð lán fyrir unga foreldra og mæðrastyrkir. Þrátt fyrir að slíkar stefnubreytingar hafi mælst vel fyrir höfðu þær neikvæð áhrif á starfsframa kvenna og skiptingu heimilisstarfa. Konur voru hvattar til þess að vera heima og öðluðust enn síður starfsframa en áður.

Ungverska ríkið vonaðist einnig til þess að auka fæðingatíðni og minnka tímabundið atvinnuþátttöku kvenna þegar það kynnti til sögunnar sérstakan barnaumönnunarstyrk. Mæður áttu að geta verið heima í þrjú ár og fengið greitt mánaðarlega frá ríkinu. Á meðan var fyrra starf þeirra tryggt. Fyrir ómenntaðar konur sérstaklega var þessi styrkur ekki slæmur kostur og varð mjög vinsæll. Kerfið var harkalega gagnrýnt fyrir að ýta undir hefðbundin kynjahlutverk, einangra konur og gera þær ómeðvitaðar um umhverfi sitt.

Í Búlgaríu reyndu stjórnvöld að hvetja konur sem voru af „hreinum“ búlgörskum uppruna til þess að eignast fleiri börn. Það var gert með því að banna giftum konum með tvö börn eða færri að fara í fóstureyðingu og takmarka framboð á getnaðarvörnum. Í Austur-Þýskalandi varð á sama tíma minna framboð á vinnuafli og fólksfækkun og var því svarað með því að hvetja konur til þess að vinna og til að eignast börn.

Stefna kommúníska ríkisins orsakaði að konur höfðu minni áhuga á því að eignast börn, því þær urðu að vinna úti en sáu jafnframt um heimilið og börnin. Þegar sú stefna ríkisins orsakaði fólksfækkun voru konur hvattar til þess að eignast börn með því að gera þeim kleift að vinna heima. Mikilvæga breytu vantaði til þess að dæmið gengi upp og jafnrétti gæti ríkt en það er þátttaka karla í heimilishaldi. Ef konur áttu bæði að vinna og eignast börn varð augljóslega meira að koma til en styrkir og dagvistun.

Meira...